Að byrja í leikskóla:

Þegar lítið barn byrjar í leikskóla verður oft mikil breyting á lífi þess og foreldranna. Barnið er nú að stíga sín fyrstu skref á menntabrautinni því leikskólinn er fyrsta skólastigið. Eins og gefur að skilja geta bæði barnið og foreldrarnir verið óörugg í fyrstu. Þegar barn byrjar í leikskóla er mikilvægt að það gerist smám saman svo barnið verði öruggt í nýju umhverfi og njóti sín sem best .Í aðlögun kynnist barnið starfsfólki, hinum börnunum og húsakynnum leikskólans. Í aðlögunarferlinu eykst öryggi barnsins smám saman og það verður tilbúnara til að vera með í leikskólahópnum.

Aðlögun:

Aðlögun er ekki einungis aðlögun barnsins, heldur einnig tími fyrir foreldra og starfsfólk að kynnast. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsfólks. Hornsteinn er lagður að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og skóla. Aðlögunin er skipulögð af deildarstjóra í samráði við foreldra. Fyrstu dagana dvelur barnið stuttan tíma ásamt foreldri en dvölin er smám saman lengd dag frá degi. Þetta er gert til þess að barnið fái gott tækifæri til að meðtaka breyttar aðstæður og er nauðsynlegt til að draga úr þreytu og spennu.

Foreldrar þurfa að gera ráð fyrir u.þ.b. vikutíma í aðlögun barnsins.