Mat og eftirlit með skólastarfi

Mat á skólastarfi hefur þann tilgang að tryggja að réttindi barna séu virt svo þau fái þá menntun og þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Mat á skólastarfi er tvíþætt, annars vegar mat sem skólar framkvæma sjálfir og hins vegar mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélasins, mennta- og menningarmálaráðuneytis eða annarra aðila. Mat á skólastarfi er meðal annars ætlað til þess að fylgjast með að ákvæði laga, reglugerða og Aðalnámskrár sé fylgt eftir. Í öðru lagi er markmiðið að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi barnanna séu virt og að börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum. Að lokum er tilgangur mats á skólastarfi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun (Aðalnámskrá bls. 26 -27, 54)

Ytra mat á leikskólastarfi

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög sjá um ytra mat leikskóla sem á að felast í úttektum á skólastarfinu og/eða einstökum þáttum þess. Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur eftirlit með því að starfsemi leikskóla bæjarins samræmist leikskólalögum, reglugerðum og Aðalnámskrá leikskóla. Það er meðal annars gert með því að kalla eftir starfs- og símenntunaráætlunum, skóladagatölum og öðrum forvarnaráætlunum sem eiga við hverju sinni. Fræðsluráð ber ábyrgð á að skólastarfið sé metið með hliðsjón af aðstæðum og sérstöðu hvers leikskóla og að skólinn meti innra starf sitt með marvissum hætti.

Reglulega eru lagðar fyrir foreldra viðhorfakannanir um líðan og menntun barnanna sem og kannanir meðal starfsmanna þar sem þeir leggja mat á starfsaðstæður sínar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið ber ábyrgð á því að fylgjast með því að sveitarfélög uppfylli lögbundnar skyldur sínar gagnvart skólum. Aðalnámskrá myndar grunn viðmiða sem skólastarfið hvílir á en í skólanámskrá útfærir skólinn nánar þau markið og viðmið sem sett eru fram í Aðalnámskrá. Innra- og ytra mat á skólastarfi á að ná til allra lögbundinna markmiða skólastarfsins, þ.m.t. það hlutverk skóla að styrkja börn til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, efla frumkvæði og sjálfstæða hugsun þeirra, samskiptahæfni og fleiri atriði sem tengist meðal annars grunnþáttum menntunar (Aðalnámskrá bls. 28 og 55).

Innra mat á leikskólastarfi

Leikskólar bera sjálfir ábyrgð á innra mati. Í Aðalnámskrá á bls. 27, 54 og 55 er kveðið á um

að við innra mat skuli gerð grein fyrir tengslum við þau markmið sem sett eru fram í skólanámskrá og að aðferðirnar taki mið af viðfangefnunum sem unnið er að hverju sinni.Innra matið á að byggjast á kerfisbundnum aðferðum sem birtast hér í þessari skólanámskrá. Í Aðalnámskrá er lagt til að innra matið flettist saman við daglegt starf og að það eigi að ná til allra þátta skólastafsins, svo sem stjórnunar, starfs- og kennsluhátta og samskipta innan og utan deilda. Þá er lögð áhersla að allt skólasamfélagið taki þátt í mati á skólastarfinu. Innra matið veitir upplýsingar um styrkleika í starfi leikskólans og það sem betur má fara. Í ljósi niðurstaðna innra mats er gerð áætlun um umbætur og skilgreindar leiðir að þeim. Leikskólinn birtir opinberlega upplýsingar um niðurtöður innra mats og áætlanir um umbætur.

Mat starfsmanna leikskólans

Barnið í brennidepli, sjálfsmat leikskóla sem er þýtt og staðfært af Hildi Skarphéðinsdóttur er sú matsaðferð sem starfsfólk Hörðuvalla notar við innra mat leikskólastarfsins. Matsaðferðin hjálpar starfsfólki að meta gæði uppeldis- og menntastarfsins, samskipti starfsfólks, foreldrasamstarfið og stjórnun leikskólans. Hugmyndafræðin og þau gildi sem matsaðferðin byggir á eru eftirfarandi:

  • að vellíðan og öryggi barna er grundvöllur og forsenda framfara þeirra og þroska

  • að leikskólastarfið á að veita öllum jöfn tækifæri til félagslegrar aðlögunar og samskipta á jafnréttisgrundvelli

  • að gott foreldrasamstarf er nauðsynleg forsenda fyrir góðri samvinnu um uppeldi og menntun barnanna

  • að leikskólinn leitast við að svara þörfum hvers barns og hverrar fjölskyldu

  • að leikskólinn er hluti þess samfélags sem starfsemi hans fer fram í

    (Hildur Skarphéðinsdóttir, Barnið í brennidepli).

    Mat barna

    Líðan og velferð barnanna er mikilvægur þáttur í öllu skólastarfi. Að gefa skoðunum barnanna gaum og að veita þeim tækifæri á að tjá þær skoðanir er afar mikilvægt. Til þess að koma til móts við óskir þeirra og þarfir og stuðla að lýðræðislegum ákvörðum þeim til heilla. eru lagðar fyrir þau kannanir til að meta skólastarfið.

    Öll börnin í elsta árgangi meta ákveðna þætti í starfi leikskólans. Það gera þau hvert fyrir sig að viðstöddum aðstoðarleikskólastjóra sem skráir niðururstöður barnanna nafnlaust. Notaðar eru Boardmaker myndir af ákveðnum þáttum daglegs lífs í leikskólanum og broskallar sem börnin nota til að meta hvað þeim finnst um matsþættina. Börnin eru einnig beðin um að nefna bestu vini sína í leikskólanum. Það er gert til að kanna hvort eitthvert barnið er sjaldan eða aldrei nefnt. Ef svo er, er unnið sérstaklega með félagsfærni með öllum hópnum og/eða með ákveðnum hluta hópsins. Mat barnanna fer fram að hausti og aftur að vori.

    Mat foreldra

    Hafnarfjarðarbær leggur reglulega fyrir kannanir þar sem viðhorf foreldra til leikskólans og menntunar barnanna eru skoðuð. Þá meta foreldrar einnig líðan barna sinna í leikskólanum og hafa möguleika á að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri. Niðurstöðurnar eru birtar opinberlega.

    Á Hörðuvöllum útbúum við umbótaáætlun í samræmi við niðurstöðurnar og ígrundum hvernig við getum bætt leikskólastarfið með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

    Einu sinni á ári er foreldrum boðið í foreldrasamtal. Hver hópstjóri hefur þá farið yfir þau hæfnisviðmið sem börn ættu að vera búin að ná á þeim aldri sem viðkomandi barn er. Í samtölunum fer deildarstjóri viðkomandi barns svo yfir þessi viðmið og mat á þroska og líðan barnsins. Foreldrar miðla til starfsmanna hvernig þeir meta stöðu barnsins heima fyrir og gefst einnig tækifæri til að koma ábendingum á framfæri er varða frekari uppbyggingu á leikskólastarfinu.