Lög Foreldrafélags leikskólans Hörðuvalla

1.gr. Félagið heitir Foreldrafélag leikskólans Hörðuvalla og var stofnað árið 1998. Kennitala félagsins er 670598-2769.

2.gr. Félagar eru foreldrar og forráðamenn barna á Hörðuvöllum en þeir verða sjálfkrafa félagar þegar börn þeirra byrja í leikskólanum.

3.gr. Markmið félagsins eru að:

a) efla samstarf milli foreldra/forráðamanna og leikskólans um málefni er varða velferð og þroska barnanna svo og aðbúnað og starfsemi leikskólans

b) vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna

c) veita stjórnendum og starfsliði leikskólans aðhald og stuðning

d) vera bakjarl leikskólans og stuðla að bættum hag hans

e) sjá um ýmsar uppákomur og skemmtanir fyrir börnin, s.s. leiksýningar, sumarhátíð, jólasvein á jólaballi, taka þátt í ferðakostnaði vorferðar o.fl.

4. gr.Stjórn foreldrafélagsins hefur forgöngu um alla vinnu við starfsemi þess. Val verkefna og vinna stjórnarmanna og annarra félagsmanna við þau skal samræmast markmiðum félagsins.

5. gr.Félagsgjöld eru greidd tvisvar á ári, einu sinni á hvorri önn. Stjórn foreldrafélagsins ákveður upphæð félagsgjalda en þau renna í sjóð sem stendur straum af kostnaði við starfsemi félagsins. Veittur skal systkinaafsláttur ef fleiri en eitt barn úr sömu fjölskyldu eru í leikskólanum. Stjórn er frjálst að taka við styrkjum og beita sér fyrir fjáröflun í þágu félagsins.

6.gr. Kosning til stjórnar fer fram á aðalfundi og skal hver deild leikskólans eiga a.m.k. einn fulltrúa í stjórn. Kjörnir eru fimm aðalmenn, þar af skal formaður kosinn sérstaklega. Að öðru leiti skiptir stjórn með sér verkum. Enn fremur skulu kjörnir tveir varamenn. Formaður stjórnar er fulltrúi foreldrafélagsins í Foreldraráði leikskóla Hafnarfjarðar. Stjórnin kemur saman svo oft sem þurfa þykir, að jafnaði einu sinni í mánuði. Leikskólastjóri eða staðgengill hans hefur seturétt á fundum foreldrafélagsins. Fundargerðir stjórnarfunda skal birta á vefsíðu leikskólans.

7. gr.Foreldraráð skal skipað þremur aðilum úr stjórn foreldrafélagsins, til eins árs í senn og ber leikskólastjóra að starfa með ráðinu. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Foreldraráð skal einnig fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi. Foreldraráð starfar skv. lögum um leikskóla nr. 90/2008.

8.gr. Aðalfund skal halda að hausti ár hvert og skal til hans boðað með auglýsingu, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

a) Skýrsla stjórnar

b) Reikningar félagsins

c) Lagabreytingar

d) Kosning stjórnar og skipun foreldraráðs

e) Önnur mál

9.gr. Tillögur til lagabreytinga verða að berast stjórn skriflega í síðasta lagi viku fyrir auglýstan aðalfund. Lagabreytingar ná því aðeins fram að ganga að 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði.