Í leikskólanum okkar eru 75 börn og rúmlega 20 starfsmenn. Að auki koma foreldrar allra 75 barnanna hér við sögu á hverjum degi. Það er því augljóst að einhverjar reglur þurfum við að hafa svo að ekki fari allt í upplausn. Margar reglurnar eru óskráðar eins og gengur og flestir þekkja frá heimili sinu eða vinnustað þó eru hér á eftir nokkur atriði sem við biðjum foreldra að hafa í huga og eru reglur sem settar eru í leikskólanum af nauðsyn.

- Lyfjagjöf: Við höfum gefið börnum astmapúst en önnur lyf á að gefa heima. Ef læknir telur nauðsynlegt að barn fái lyf í leikskólanum þarf að koma með læknisvottorð og ræða um það við leikskólastjóra.

- Innivera eftir veikindi: Eftir að barn hefur verið heima hitalaust í sólarhring eftir veikindi getur það fengið að vera inni í einn til tvo daga eftir atvikum svo framarlega sem aðstæður í leikskólanum leyfa. Innivera í leikskóla til að fyrirbyggja veikindi er ekki í boði.

- Vistunartímar: Við kaup á vistunartíma fyrir barnið þarf að gera ráð fyrir ferðum til og frá vinnu. Það er mjög mikilvægt að foreldrar virði þann vistunartíma sem þeir kaupa því að mönnun leikskólans fer eftir fjölda barna á hverjum tíma. Hér er átt við tímann á morgnana og seinni hluta dags. Þetta er mjög mikilvægt svo að starfsmenn séu nægilega margir til að tryggja öryggi barnanna og geti sinnt þeim vel.

- Fjarvera: Vinsamlega tilkynnið okkur um veikindi eða aðra fjarveru barnsins. Það er hægt að gera annað hvort símleiðis í síma 555-0721 eða með skilaboðum á Karellen appinu. Þetta er okkur mjög mikils virði.

- Barn er sótt: Vinsamlega látið okkur vita ef einhverjir aðrir en þeir sem venjulega sækja barn ætla að sækja. Þetta skiptir bæði barnið og okkur miklu máli. Við þurfum að vita að hvort viðkomandi hefur leyfi forráðamanna til að sækja barnið. Stjórnendur Hörðuvalla óska eftir því að sá aðili sem sækir barn sé orðin 12 ára.

- Leikföng að heiman: Einstöku sinnum erum við með sérstakan leikfangadag í leikskólanum og stundum er leyfilegt að koma með bangsa með sér t.d. þegar við höldum náttfataball. Þessir dagar eru alltaf auglýstir sérstaklega. Að öðru leyti eiga leikföng barnanna að vera heima. Eina undantekningin er á meðan barn er í aðlögun og á sér sérstakan „huggara“ sem veitir því öryggi meðan það stígur sín fyrstu skref í leikskólanum.

- Heimsóknir í leikskólann, komu- og/eða brottfarartímar: Í leikskólanum erum við með dagskipulag sem finna má undir „Daglegt starf“ hér á heimasíðunni. Þar koma fram tímasetningar á starfsemi leikskólans. Sumir tímar í dagskipulaginu eru viðkvæmari fyrir truflun en aðrir, má þar nefna hópastarf sem eru kennarastýrðir tímar þar sem börnin eru að vinna eftir fyrirmælum frá kennara og tíminn í hádeginu frá 11:30-13:00 en þá borða börnin og hvíla sig. Foreldrar, forráðamenn og aðrir aðstandendur er beðnir að virða þessa tíma, hvíld og vinnu barnanna. Ef koma þarf með eða sækja barn á þessum tímum nú eða bara að hitta barnið þá vinsamlega látið okkur vita fyrirfram svo hægt sé að gera ráðstafanir.

-Sími: Af gefnu tilefni tökum leggjum við áherslu á að börn eru aldrei sótt í símann. Ef foreldrar vilja koma skilaboðum til barna sinna fara þau skilaboð í gegn um kennarana.